Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, hefur lagt fram samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2018. Þar er gert ráð fyrir að heildartekjur og framlög til samgönguáætlunar verði 381,4 milljarðar króna á þessu tímabili og af þeirri upphæð renni kringum 324 milljarðar króna eða 85% til vegamála. Til flugmála renna kringum 35 milljarðar og siglingamála 22 milljarðar.
Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun, sem nær yfir tímabilið 2003-2014, var gert ráð fyrir að útgjöld til samgöngumála yrðu 237,4 milljarðar króna og af því rynnu 173,3 milljarðar eða 73% til vegamála. Samanlagðar heildartekjur og gjöld samgönguáætlunar 2003-2014 voru 28,6% af vergri þjóðarframleiðslu ársins 2003 en sambærileg tala fyrir samgönguáætlun 2007-2018 er 29,5% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu árið 2007.
Samgönguáætlunin felur í sér stefnumótun og helstu markmið í samgöngumálum sem unnið skal að, skilgreiningu á grunnneti, áætlun um fjáröflun og yfirlit um útgjöld til helstu þátta í rekstri samgöngustofnana svo og viðhalds, öryggismála og nýframkvæmda á sviði flugmála, siglingamála og vegamála.
Framlög til vegamála hækka umtalsvert í nýrri samgönguáætlun. Í ár verða þau 18 milljarðar, á næsta ári 32 milljarðar, tæplega 28 milljarðar árið 2009 og 26 milljarðar 2010. Sé litið á fjögurra ára tímabilin verða framlögin til vegamála 105 milljarðar árin 2007 til 2010, 130 milljarðar árin 2011 til 2014 og 121 milljarður á síðasta tímabilinu. Framlög til vegamála voru innan við 80 milljarðar árin 2003 til 2006.
Til flugmála verður varið alls um 35 milljörðum króna og rennur meirihluti þess fjár, kringum 30 milljarðar, til verkefna á vegum Flugstoða ohf. en tæpir 5 milljarðar fara til Flugmálastjórnar. Meðal umfangsmikilla verkefna sem ráðist verður í á fyrsta tímabili áætlunarinnar má nefna samgöngumiðstöð í Reykjavík og lengingu flugbrauta á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.
Til siglingamála á að verja 22 milljörðum króna. Rúmir þrír milljarðar á hverju fjögurra ára tímabili fara í rekstrar- og þjónustuverkefni en um 10 milljarðar alls í stofnkostnað, mest á fyrsta tímabilinu eða 6 milljarðar til margvíslegra hafnarmannvirkja.
Verja á um 42 milljörðum króna til vegaframkvæmda á landsbyggðinni og um 37 milljörðum til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður tæpum 38 milljörðum ráðstafað til jarðganga. Einnig er gert ráð fyrir að afla kringum 45 milljarða króna með sérstakri fjármögnun og ráðstafa til ákveðinna verkefna, svo sem breikkun Hringvegarins út frá Reykjavík og framkvæmdum við Sundabraut. Þá verður um 33 milljörðum króna varið til vegaframkvæmda utan grunnnets samgöngukerfisins.
Um 66 milljarðar fara í rekstrargjöld vegamála og er meirihlutinn þjónusta á vegakerfinu sem fer sívaxandi. Þá fara rúmir 52 milljarðar króna í viðhald vegakerfisins.
Samgönguáætlunin gerir ráð fyrir að ráðast megi í nokkur viðamikil verkefni og þau fjármögnuð með sérstakri fjáröflun. Um er að ræða framkvæmdir eins og samgöngumiðstöð í Reykjavík, átak í breikkun og endurbótum á aðalvegum út frá Reykjavík til austurs og norðurs og bygging og rekstur Bakkafjöruferju. Með sérstakri fjármögnun er átt við einkaframkvæmd, sérstaka lántöku eða nýja gjaldtöku af umferðinni þar sem miðað er við stað og stund notkunar.
„Gefi almenn staða efnahags- og atvinnumála tilefni til, eru vandséð rök fyrir því að fresta arðbærum samgönguframkvæmdum, þannig að samfélagið fari á mis við þann ábata sem af þeim hlýst,” segir meðal annars í niðurlagi áætlunarinnar.