1.729 klamydíutilfelli greind á Íslandi árið 2006

Árið 2006 greindust samtals 1729 klamydíutilfelli á Íslandi en árið 2005 greindust 1.622 tilfelli klamydíutilfelli. Sýkingin greindist oftar hjá konum en körlum og var kynjahlutfall nokkuð stöðugt milli ára.

Í Farsóttarfréttum landlæknisembættisins kemur fram að sýkingin greindist oftast hjá aldurshópnum 20–24 ára, en fólk á aldrinum 15–19 ára fylgdi í kjölfarið. Flest tilfellin voru meðal fólks á aldrinum 18–19 ára. Sýkingum fækkaði síðan að nýju eftir 25 ára aldurinn og varð sjaldséðari með hækkandi aldri.

Í Farsóttarfréttum kemur fram að á seinni hluta ársins greindu Svíar frá nýjum stofni klamydíu sem náð hefur útbreiðslu í Svíþjóð en hafði ekki greinst með þeim aðgerðum sem höfðu verið notaðar fram að því. Hafin er rannsókn á sýklafræðideild LSH til að athuga hvort þessi stofn hefur borist hingað til lands. Leitað hefur verið að nýja stofninum í yfir 1.000 sýnum sem send voru til klamydíurannsókna og hefur greinst klamydía í um 10% sýnanna. Svo virðist sem innan við 2% af jákvæðum sýnum séu af nýja stofninum. Fyrstu niðurstöður benda því til þess að stofninn hafi ekki náð útbreiðslu hérlendis.

Klamydía getur leitt til ófrjósemi hjá konum ef hún er ekki greind tímalega og meðhöndluð. Það er því áríðandi að leita til læknis, vakni grunur um smit en rétt er að benda á að sýkingin getur verið á einkenna, einkum hjá konum, að því er segir í Farsóttarfréttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert