Ákveðið var á ríkisstjórnarinnar í morgun að setja á laggirnar áfallateymi fyrir fyrrverandi skjólstæðinga Byrgisins. Það verður á geðsviði Landspítalans undir stjórn Bjarna Össurarsonar yfirlæknis og auk hans verða tveir sérfræðingar í teyminu.
Einnig var ákveðið að stofna teymi sem á að veita þeim sem dvöldu á vistheimilinu í Breiðavík og eiga um sárt að binda sálfræðiaðstoð og skylda þjónustu. Fyrir því teymi fer Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur geðsviðs Landspítala.
Þessi tvö teymi eiga að taka til starfa nú þegar og sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra, eftir fundinn í morgun að þau muni taka strax til starfa. Þá sagði hann starfsfólk spítalans hafa lýst sig fært um að taka nú þegar á móti þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara mála. Ekki hefur verið gengið frá aukafjárveitingu vegna þessara starfa en Geir sagði að það yrði gert reynist þörf á því.
Sagðist hann vonast til þess að þessi úrræði muni koma sem flestum sem eiga um sárt að binda vegna þessara mála til góða og þá ekki síst konum með börn. Þá sagði hann það vera í höndum sérfræðiteymanna að ákveða hvort haft verði einhvers konar frumkvæði að því að hafa samband við það fólk sem dvaldi á umræddum stöðum eða hvort fólki verði í sjálfsvald sett hvort það leiti eftir þessari aðstoð.
Einnig var ákveðið að gera úttekt og rannsókn á aðstæðum á upptökuheimilinu í Breiðavík á árunum 1950-1980 og verða settar lagareglur sem m.a. eiga að afmarka það verkefni á næstu vikum. Geir sagði eftir fundinn í morgun að óvíst væri hversu miklar upplýsingar hægt sé að fá í þetta gömlum málum en að mikilvægt sé að rétt verði að allri málsmeðferð staðið og að réttar allra aðila verði gætt. Þá kvaðst hann vonast til þess að niðurstöður slíkrar úttektar geti orðið til þess að auðvelda okkur að læra af mistökum fortíðarinnar og búa sem best að umkomulausum börnum dagsins í dag.
Spurður um það hvort hugsanlegt væri að drengir sem dvöldust á vegum ríkisins í Breiðavík fái fébætur sagði Geir ekkert liggja fyrir um slíkt. Það verði væntanlega eitt af þeim atriðum sem rætt verði í fyrirhugaðri úttekt.
Forsætisráðherra sagði einnig að sett hefði verið ákveðið fordæmi fyrir slíkri úttekt í Kaldastríðsnefndinni og að úttekt nefndarinnar verði a.m.k. fyrst í stað takmörkuð við Breiðavíkurheimilið. Ekki hafi verið rætt um önnur upptökuheimili eða Heyrnleysingjaskólann í því sambandi hvað svo sem síðar verði.