Bæjarstjórnir fagna jarðgangaákvörðun

Bæjarstjórnir Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar samþykktu í dag sameiginlega ályktun þar sem fagnað er þeirri ákvörðun samgönguráðherra að ráðast í gerð jarðganga milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar um svonefnda Skarfaskersleið, frá Ósi við Bolungarvík að Skarfaskeri í Hnífsdal.

Í ályktuninni segir, að Óshlíðargöng muni leysa af hólmi veg um Óshlíð, þar sem vegfarendum hafi ætíð staðið ógn af snjóflóðum, aurskriðum og grjóthruni. Ásamt því að auka til muna umferðaröryggi milli tveggja stærstu þéttbýliskjarna á Vestfjörðum muni göngin leggja grunn að öflugra samstarfi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana á norðanverðum Vestfjörðum og gera þannig sveitarfélögin tvö að einu atvinnu- og þjónustusvæði.

Einnig lýsa bæjarstjórnirnar yfir ánægju með að framkvæmdir skuli hafnar við þverun Mjóafjarðar og Reykjarfjarðar við Ísafjarðardjúp. Á næstu dögum verður vegagerð um Arnkötludal boðin út og sjá þá íbúar á norðanverðum Vestfjörðum loks fyrir endann á því að leiðin inn á hringveg eitt verði öll bundin slitlagi.

Loks fagna bæjarstjórnirnar því, að í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun á Alþingi sé einnig gert ráð fyrir að hafist verði handa við gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar í beinu framhaldi af Óshlíðargöngum. Árétta bæjarstjórnirnar mikilvægi þess að tengja suður- og norðursvæði Vestfjarða með öruggum heilsárssamgöngum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert