„Ekki verður deilt við dómarann"

Á öðrum degi þessara umfangsmestu réttarhalda í sögu íslenska réttarkerfisins héldu vitnaleiðslur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni áfram og fór verjandi Jóns Ásgeirs, Gestur Jónsson yfir ákæruliði 2 til 9, þá ákæruliði sem settur saksóknari yfirheyrði hann um í gær. Gestur yfirheyrði skjólstæðing sinn um ýmis atriði í tengslum við viðskipti Baugs og Gaums meðal annars um samningagerð vegna reksturs Debenhams í Smáralind.

Jón Gerald Sullenberger sem er meðal hinna þriggja ákærðu í þessum lið málsins var í dag viðstaddur er dómur var settur. Þau tíðindi urðu að verjandi Jóns Ásgeirs, Gestur Jónsson fór fram á að honum yrði vísað úr dómssalnum.

Hann verður bara að fara út, sagði dómarinn og bætti við að meginreglan er sú að þeir sem eru ákærðir séu yfirheyrðir án þess að aðrir sem eru ákærðir séu viðstaddir.

„Ekki verður deilt við dómarann, Jón Gerald fer út,” sagði Arngrímur Ísberg héraðsdómar. Má hann koma aftur? Spurði verjandi Sullenbergers. „Já, hann er velkominn aftur, á hann ekki að koma í næstu viku?” var svar dómara.

Jón Gerald sagði að það kæmi sér mjög á óvart að fá ekki að vera viðstaddur vitnaleiðslur í máli sem hann er sakborningur í. ,,Ég flaug ekki yfir hálfan hnöttinn til að vera síðan ekki viðstaddur réttarhöldin,” sagði hann í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Gestur Jónsson bar fram þá ósk að reynt væri að klára yfirheyrslurnar yfir Jóni Ásgeiri fyrir fimmtudaginn og Arngrímur Ísberg héraðsdómari sagði að ein leið til að spara tíma væri að menn styttu mál sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka