Gjaldskrárhækkun Herjólfs upphefur ávinning af matarskattslækkun

Galdskrárhækkun Herjólfs var mótmælt í Vestmannaeyjum í janúarlok.
Galdskrárhækkun Herjólfs var mótmælt í Vestmannaeyjum í janúarlok. mynd/Suðurland.is

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að tæplega 11% hækkun á gjaldskrá Herjólfs, sem tók gildi um mánaðamótin, færi langt með að upphefja þann ávinning, sem Vestmannaeyingar fengju vegna væntanlegrar lækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Ríkisstjórnin var í umræðunni skömmuð fyrir að standa sig illa við að jafna aðstöðu landsmanna í samgöngum.

Lúðvík fór fram á umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag um samkeppnisstöðu Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar. Sagði hann, að fólki hefði fækkað verulega á landsbyggðinni á undanförnum árum en mikil verðmæti væru fólgin í því, að landsbyggðin væri í byggð og þar léku stjórnvöld stórt hlutverk.

Lúðvík sagði, að sú hagræðing, sem hlotist hefði af núverandi sjávarútvegskerfi, bitnaði á sjávarbyggðunum með miklum þunga. Á síðustu 15 árum hefði íbúum í Vestmannaeyjum fækkað úr 5000 í 4000. Þar kæmi margt til. Samgöngur hefðu ekki þróast með eðlilegum hætti á undanförnum árum og vegna fargjaldahækkunar og afnáms strandflutninga gæti Herjólfur ekki lengur sinnt þeim verkefnum sem hann á að synja. Koma þyrfti fjármagn úr ríkissjóði ef lækka ætti gjaldskrá skipsins.

Þá sagði Lúðvík, að skipalyftan í Vestmannaeyjum hefði hrunið, hana þyrfti að endurbæta og ekkert væri því til fyrirstöðu ef fjármagn kæmi frá stjórnvöldum.

Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, sagði að framlög til byggðamála hefðu farið vaxandi á undanförnum árum. Hann sagði að Vestmannaeyjar hefðu sérstöðu meðal byggða landsins og byggðin þar hefði staðið fremur höllum fæti. Því væri skiljanlegt, að Vestmannaeyingar lýstu óánægju þegar truflanir yrðu á samgöngum.

Jón sagði, að af hálfu Eyjamanna hefði oft verið lýst þörf fyrir nýtt og stærra og hraðskreiðara flutningaskip. Sagði Jón að það hefði oft verið rætt innan ríkisstjórnarinnar og mikill skilningur væri þar á þessum óskum og þörfum.

Jón sagði, að verið væri að endurskoða hafnalög, þar á meðal ákvæði um lyftumannvirki. Sagðist Jón ekki vita hvort erindi vegna Skipalyftunnar hefði borist til Byggðastofnunar en hann treysti því að um það væri fjallað á málefnalegan hátt. Hins vegar væru mjög miklar skorður settar við opinberum stuðningi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þá sagði Jón, sagði, að á þeim svæðum þar sem hefðbundnar atvinnugreinar væru á undanhaldi væri lögð aukin áhersla á nýsköpun. Mikilvægt væri að vinna á grundvelli vaxtasamninga til að efla byggðir og atvinnulíf. Í nýlegum vaxtasamningi, sem Eyjamenn eiga aðild að, væru meðal annars talin upp mörg mikilvægt verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert