Íslensk stjórnvöld eru í nýrri skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi, ECRI, m.a. hvött til að taka á miklu brottfalli nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir úr framhaldsskólum.
Þá er mælt með að börnum sem aðhyllast aðra trú en kristna trú verði gefinn kostur á annars konar trúfræðslu í skólum. Angi af sama meiði er að eindregið er mælst til þess að umsókn um byggingu mosku og íslamskrar menningarmiðstöðvar verði tekin til athugunar "án frekari tafa".
Starfsréttindi og aðbúnaður erlends vinnuafls hafa verið mikið til umræðu að undanförnu og hvetja sérfræðingar ECRI stjórnvöld til að veita erlendum ríkisborgurum atvinnuréttindi milliliðalaust en ekki í gegnum vinnuveitendur þeirra.
Töluverð áhersla er lögð á íslenskukennslu og bent á mikilvægi þess að stjórnvöld fylgist með gæðum hennar í skólum. Er jafnvel lagt til að slík tungumálanámskeið séu innflytjendum að kostnaðarlausu og á skrifstofutíma.