Kúbískt verk eftir Kjarval komið fram

Verk Kjarvals.
Verk Kjarvals.

eftir Hjálmar Jónsson

hjalmar@mbl.is

KOMIÐ er í leitirnar málverkið Hvítasunnudagur eftir Kjarval, sem er málað í kúbískum anda á árunum 1917–1919 í Kaupmannahöfn. Vitað var um tilvist myndarinnar, en ekki afdrif hennar fyrr en nýlega að verkið fannst í Danmörku. Það hefur alla tíð verið í einkaeigu og ekki boðið til sölu fyrr en nú að það verður boðið upp á listaverkauppboði í Danmörku í lok mánaðarins.

Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur og höfundur bókar um Kjarval ásamt fleirum sem kom út 2005, sagði að það væri mjög skemmtilegt að þetta verk væri komið í leitirnar. Á sínum tíma hefði hún gert talsvert til þess að finna það en án árangurs. Mest hefði verið leitað á Íslandi, en vitað hefði verið um tilvist þess þar sem til voru skissur að því. "Verkið er frá þessu kúbíska tímabili og gefur okkur ítarlegri og fyllri mynd af því tímabili á hans ferli," sagði Kristín.

Hún sagði að Kjarval hefði verið að prófa sig áfram með þennan stíl, sem eiginlega mætti kalla danskan kúbisma, strax eftir að hann kláraði akademíuna. Hann hefði verið leitandi á þessum tíma en verkið hefði verið mjög framsækið þegar það var málað.

Hún sagðist aðspurð telja það sæta talsverðum tíðindum að þetta verk væri komið í leitirnar. "Mér finnst það mjög áhugavert og skemmtilegt að þessi mynd skuli vera komin fram," sagði Kristín. "Þetta gefur fyllri mynd af þessu stutta kúbíska skeiði hans, þannig að ég myndi telja að það væri mikill akkur í því að fá það heim og inn á safn hér á landi."

Fram kemur að málverkið er úr safni Nienstedts heildsala, en Kjarval bjó hjá fjölskyldunni þegar hann var við nám í Konunglegu dönsku listakademíunni. Samkvæmt áletrun gaf Kjarval Nienstedts-hjónunum málverkið í silfurbrúðkaupsgjöf í maí árið 1919.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert