eftir Egil Ólafsson
egol@mbl.is EF HÆTT yrði við að reisa þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár er ekki sjáanlegt að Landsvirkjun muni reisa nýjar virkjanir á Suðurlandi í náinni framtíð. Ólíklegt er þó að Landsvirkjun hætti við framkvæmdirnar þrátt fyrir að andstaða sé við þessar virkjanir meðal heimamanna. Á morgun verða tilboð opnuð í ráðgjöf og hönnun virkjananna.
Mjög fjölmennur fundur var haldinn sl. sunnudag þar sem hvatt var til þess að hætt yrði við að reisa virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Virkjanirnar eru þrjár, Urriðafossvirkjun (125 MW), Hvammsvirkjun (80 MW) og Holtavirkjun (50 MW). Þessar virkjanir hafa verið í undirbúningi í langan tíma. Grunnrannsóknir vegna þeirra voru unnar fyrir 20 árum, tilhögun þeirra hefur legið fyrir í u.þ.b. átta ár og umhverfismat fór fram 2003–2004. Tvær umhverfismatsskýrslur voru unnar og komu fram 11 athugasemdir við hvora. Úrskurðir Skipulagsstofnunar voru kærðir til umhverfisráðherra. Ein kæra kom vegna Hvamms- og Holtavirkjunar og fimm vegna Urriðafossvirkjunar. Kæruefnin voru fyrst og fremst vegna lands sem fer á kaf.
Fundur Sólar á Suðurlandi skoraði "á íslensk stjórnvöld að fórna ekki íslenskri náttúru til framkvæmda sem nýtast eiga til mengandi starfsemi". Orkunni frá virkjununum er ætlað að knýja stækkað álver Alcan í Straumsvík. Mjög tvísýnt er hvort Hafnfirðingar samþykkja stækkun álversins. Verði stækkun hafnað má allt eins gera ráð fyrir að Landsvirkjun taki upp viðræður við aðra orkukaupendur eins og t.d. aðila sem vilja reisa kísilflöguverksmiðju í Hvalfirði.