Sýknaður af ákæru fyrir að aka undir áhrifum róandi lyfs

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að aka bíl undir áhrifum róandi lyfs. Maðurinn lenti í árekstri í júlí á síðasta ári, þegar hann ók á kyrrstæðan bíl við umferðarljós. Ákæruvaldið taldi að ástæðan væri sú að maðurinn hafði neytt tiltekins kvíðastillandi lyfs en dómurinn taldi ósannað að sú neysla hefði skert getu hans til að aka bíl.

Fram kom í málinu, að lögregla sagði manninn hafa verið í annarlegu ástandi eftir óhappið en maðurinn taldi sig hafa fengið krampakast með þeim afleiðingum að hann hafi ekið aftan á annan bíl. Þá hafi hann verið eftir sig eftir kastið og það skýrði það þau einkenni sem hann hafi haft í framhaldi og hafi verið talin merki um að hann væri undir áhrifum lyfja.

Maðurinn sagðist hafa tekið lyfið Tafil Retard í um tvö ár vegna þunglyndis og kvíða, sem væri á það háu stigi að það valdi krampaköstum, líkum flogaköstum.

Í dómnum er vísað til framburðar lækna um, að við töku á lyfinu Tafil myndist þol gegn verkun þess. Væri ekki hægt að útiloka að maðurinn hefði myndað þol gegn verkuninni og áhrifin af töku lyfsins væru því minni. Þá taldi annar læknirinn að öll þau einkenni, sem maðurinn hafði við skoðun eftir áreksturinn geti samrýmst því að hann hafi fengið einhvers konar flogakast og að þessi áhrif geti varað jafnvel í nokkrar klukkustundir.

Taldi dómurinn í ljósi þessa verulegan vafa leika á um það hvort skert geta mannsins til aksturs umræddan dag hafi stafað af neyslu róandi lyfs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert