Borgarfulltrúar Vinstri grænna ætla að leggja fram tillögu vegna innflytjendamála og skýrslu Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi, ECRI, á næsta fundi borgarráðs. Tillagan felur í sér að borgarráð samþykki að fela borgarstjóra að vinna aðgerðaáætlun til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar í skýrslu ECRI.
Fulltrúar VG segja þetta geta varðað Reykjavík og Reykvíkinga sérstaklega. Áætlunin verði unnin í samráði við þau ráð er málið varðar helst, s.s. velferðarráð, menntaráð, leikskólaráð, íþrótta- og tómstundaráð og mannréttindanefnd, og verði lögð fyrir borgarráð fyrir 1. maí nk.