Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 23 ára gamlan karlmann í 18 mánaða fangelsi og 21 árs gamlan karlmann og 18 ára gamla konu í 12 mánaða fangelsi hvort fyrir að flytja 360 grömm af kókaíni til landsins á síðasta ári. Að auki var fólkið dæmt til að greiða málskostnað, samtals nærri 2,3 milljónir króna. Dómur konunnar er skilorðsbundinn en hún á von á barni í sumar.
Sá sem hlaut þyngsta dóminn var fundinn sekur um að hafa, að beiðni óþekkts vitorðsmanns, haft milligöngu um flutning kókaínsins til Íslands með því að setja sig í samband við hin tvö og fá þau til að flytja efnið hingað til lands frá Amsterdam í Hollandi.
Maðurinn afhenti „burðardýrunum" peninga til að greiða fyrir kókanínið, flugmiða og uppihald í ferðinni. Fólkið fór síðan allt til Amsterdam um miðjan ágúst en karlmaðurinn og konan, sem vægari dómana hlutu fluttu kókaínið síðan til Íslands.
Fram kemur að konan flutti 161,9 grömm af kókaníni innvortis en maðurinn flutti 198,6 grömm innan klæða. Þau voru stöðvuð af tollvörðum við komu til Keflavíkurflugvallar þar sem kókaínið fannst.