eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
Deilur um spurningar setts ríkissaksóknara til Jóns Ásgeir Jóhannessonar settu mikinn svip á aðalmeðferð Baugsmálsins í gær. Hvað eftir annað óskaði verjandi Jóns Ásgeirs eftir því að saksóknari héldi sig við ákæruefnið en spyrði ekki út í mál sem kæmu ákærunni hreint ekki við. Það væri ekki boðlegt að þurfa að sitja undir slíku dag eftir dag.
Dómsformaðurinn sagði sömuleiðis að spurningar væru orðnar staglkenndar en saksóknari sagði nauðsynlegt að hann fengi að leggja þær fyrir Jón Ásgeir enda hvíldi það á ákæruvaldinu að færa sönnur á ákæruna.
Að þessu leyti sór annar dagur aðalmeðferðarinnar sig því töluvert í ætt við þann fyrsta.
Hvað sem líður réttmæti spurninga saksóknarans varð í gær endanlega ljóst að ekki tekst að ljúka yfirheyrslu yfir Jóni Ásgeiri í dag eins og til stóð. Upphaflega var gert ráð fyrir að henni myndi ljúka fyrir hádegi í dag en saksóknari greindi frá því í gær að dagurinn í dag myndi ekki einu sinni duga. Gestur Jónsson hrl., verjandi Jóns Ásgeirs, hafði lagt mikla áherslu á að staðið yrði við dagskrána þar sem Jón Ásgeir hefði bókað fundi erlendis á fimmtudag. Síðdegis í gær var verið að athuga hvort hægt yrði að fresta fundinum en ekki var enn ljóst hvort yfirheyrslan héldi áfram á fimmtudag eða yrði frestað um lengri tíma.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.