Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Kaupás af bótakröfu manns, sem lenti í umferðarslysi á Eiðsgranda í Reykjavík árið 2005. Maðurinn taldi, að trégrindverk, sem reist hafði verið við lóðamörk verslunarinnar Krónunnar, hefði byrgt útsýni og því hefði hann ekki séð til umferðar austur Eiðsgranda. Dómurinn taldi hins vegar að slysið hefði orðið vegna óaðgæslu ökumannsins.
Í niðurstöðu dómsins segir, að akstursaðstæður, sem þarna séu, hljóti að teljast augljóslega hættulegar. Gildi það almennt um þær aðstæður sem þarna séu en umrætt grindverk hafi aðeins verið ein af ástæðunum fyrir því að útsýni var takmarkað. Maðurinn hafi vitað um hinar hættulegu aðstæður sem þarna voru og borið að miða aksturinn við aðstæður og haga honum að öðru leyti í samræmi við umferðarreglur.