Geitur Jóhönnu Þorvaldsdóttur, bóndi á Háafelli í Hvítársíðu framleiða geitamjólk í nýja afurð Mjólkurbúsins í Búðardal, geitaostinn. Jóhanna hefur lengi barist fyrir því að fá að selja ógerilsneydda geitamjólk í beinni sölu og framleiða úr henni afurðir. Fréttavefurinn Skessuhorn greinir frá þessu.
Jóhanna segir í viðtali sem birtist á bondi.is nýlega að úr því að hún megi ekki framleiða sjálf sé þetta næst besta leiðin. Ógerilsneydd geitamjólk er talin auðmeltari en kúamjólk. Rannsóknir frá Noregi sýna það og því hefur nokkuð verið um að sóst sé eftir geitamjólk handa mikið veikum börnum.
Sævar Hjaltason, mjólkurbússtjóri í Búðardal segir að mikið hafi verið spurt eftir þessum afurðum og margir þekki geitaost erlendis frá svo vonandi veki hin nýja framleiðsla lukku, að því er fram kemur á fréttavefnum Skessuhorni.