Menntamálaráðherra: Stytting námstíma til stúdentsprófs ekki markmið í sjálfu sér

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Sverrir

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, mennta­málaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að stytt­ing náms­tíma til stúd­ents­prófs væri ekki mark­mið í sjálfu sér held­ur mik­il­væg­ur val­kost­ur nem­enda á fjöl­breytt­um náms­braut­um skóla­kerf­is­ins í sí­breyti­legu þjóðfé­lagi.

Þetta kom fram í svari Þor­gerðar Katrín­ar við fyr­ir­spurn Björg­vins G. Sig­urðsson­ar þing­manns Sam­fylk­ing­ar, sem spurði hvað liði fyr­ir­ætl­un­um um stytt­ingu á náms­tíma til stúd­ents­prófs um eitt ár.

„Er hætt­an fyr­ir fram­halds­skól­ann liðin hjá, hef­ur ráðherr­ann end­an­lega hent þess­um til­lög­um á póli­tíska hauga eða vof­ir það ennþá yfir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ætli að skera niður og geng­is­fella ís­lenska fram­halds­skól­ann með þeim hætti sem boðaður hef­ur verið?" spurði Björg­vin m.a.

Þor­gerður Katrín sagði að um­fangs­mikið sam­starf væri milli Kenn­ara­sam­bands­ins og mennta­málaráðuneyt­is­ins. Hóp­ar sem starfað hafi á grund­velli sam­komu­lags þeirra á milli séu að skila inn til­lög­um og farið verði yfir þær. Hún sagði að hug­mynd­ir um stytt­ingu náms­tíma til stúd­ents­prófs hafi lengi verið uppi hér á landi. Rifjaði hún upp hug­mynd­ir nefnd­ar um mót­un mennta­stefnu sem skilaði skýrslu 1994. Voru þær lagðar til grund­vall­ar lög­um um grunn­skóla og síðar fram­halds­skóla. Nefnd­in hafi einnig lagt til að náms­tími á bók­náms­braut­um yrði stytt­ur úr fjór­um árum í þrjú og ár­leg­ur kennslu­tími í grunn­skól­um og fram­halds­skól­um yrði lengd­ur.

Þor­gerður nefndi sam­komu­lag sem hún und­ir­ritaði 2. fe­brú­ar 2006 við við stjórn Kenn­ara­sam­bands Íslands (KÍ) og stjórn­ir kenn­ara­fé­laga KÍ um „tíu skref til sókn­ar í skóla­starfi". Sam­komu­lagið taki til fleiri þátta en ein­ung­is stytt­ing­ar náms­tíma til stúd­ents­prófs. Sagði mennta­málaráðherra að hún og kenn­ar­ar hafi sam­mælst um að ráðast í tíu skil­greind verk­efni sem unn­in verða sam­hliða breytt­um náms­tíma til stúd­ents­prófs. Fjöl­marg­ar nefnd­ir og starfs­hóp­ar, þar sem nær 100 full­trú­ar helstu hags­munaaðila eigi sæti, hafi komið að þess­ari vinnu á liðnu ári. Flest­ir starfs­hóp­ar og nefnd­ir hafa þegar skilað til­lög­um til ráðherr­ans en von er á þeim síðustu nú í fe­brú­ar. Þor­gerður Katrín nefndi sér­stak­lega til­lög­ur starfs­náms­nefnd­ar.

„Við gerðum okk­ur grein fyr­ir því þegar ég skipaði þessa nefnd að þær til­lög­ur myndu hugs­an­lega hafa áhrif á þær til­lög­ur sem fyr­ir voru í ráðuneyt­inu," sagði Þor­gerður Katrín. Hún sagði að þar væri lögð áhersla á jafn­gild­ingu verk­náms og bók­náms og efl­ingu starfs­náms í fram­halds­skól­un­um. Þar væri ný hugs­un um eitt stúd­ents­próf. Lagðar væru fram rót­tæk­ar hug­mynd­ir um ný­skip­an fram­halds­skól­ans og end­ur­skil­grein­ingu stúd­ents­prófs­ins.

„Skól­an­um verði veitt frelsi til að skipu­leggja og bjóða nám í sam­ræmi við loka­mark­mið náms­ins, þar með nem­enda­kröf­ur næsta viðtöku­skóla­stigs eða at­vinnu­lífs­ins. Nem­andi ljúki nám­inu á þeim tíma sem nauðsyn­leg­ur er með til­liti til þess­ara þátta. Námið miðist við inn­tak frem­ur en tíma," sagði Þor­gerður Katrín.

Náms­tími hef­ur lengst með leng­ingu skóla­árs­ins. Sagði Þor­gerður Katrín að grunn­skól­inn hafi lengst um tvö ár og fram­halds­skól­inn um eitt miss­eri. Hún sagði og að auk­in sam­fella í náms­efni milli skóla­stiga og sveigj­an­leiki í skipu­lagi muni skapa nem­end­um fjöl­breytta mögu­leika til að velja nám í sam­ræmi við þarf­ir sín­ar og hæfi­leika og fleiri tæki­færi til að ákveða náms­hraðann í takti við hæfi­leika sína og áhuga.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert