Menntamálaráðherra: Stytting námstíma til stúdentsprófs ekki markmið í sjálfu sér

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Sverrir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að stytting námstíma til stúdentsprófs væri ekki markmið í sjálfu sér heldur mikilvægur valkostur nemenda á fjölbreyttum námsbrautum skólakerfisins í síbreytilegu þjóðfélagi.

Þetta kom fram í svari Þorgerðar Katrínar við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar þingmanns Samfylkingar, sem spurði hvað liði fyrirætlunum um styttingu á námstíma til stúdentsprófs um eitt ár.

„Er hættan fyrir framhaldsskólann liðin hjá, hefur ráðherrann endanlega hent þessum tillögum á pólitíska hauga eða vofir það ennþá yfir að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að skera niður og gengisfella íslenska framhaldsskólann með þeim hætti sem boðaður hefur verið?" spurði Björgvin m.a.

Þorgerður Katrín sagði að umfangsmikið samstarf væri milli Kennarasambandsins og menntamálaráðuneytisins. Hópar sem starfað hafi á grundvelli samkomulags þeirra á milli séu að skila inn tillögum og farið verði yfir þær. Hún sagði að hugmyndir um styttingu námstíma til stúdentsprófs hafi lengi verið uppi hér á landi. Rifjaði hún upp hugmyndir nefndar um mótun menntastefnu sem skilaði skýrslu 1994. Voru þær lagðar til grundvallar lögum um grunnskóla og síðar framhaldsskóla. Nefndin hafi einnig lagt til að námstími á bóknámsbrautum yrði styttur úr fjórum árum í þrjú og árlegur kennslutími í grunnskólum og framhaldsskólum yrði lengdur.

Þorgerður nefndi samkomulag sem hún undirritaði 2. febrúar 2006 við við stjórn Kennarasambands Íslands (KÍ) og stjórnir kennarafélaga KÍ um „tíu skref til sóknar í skólastarfi". Samkomulagið taki til fleiri þátta en einungis styttingar námstíma til stúdentsprófs. Sagði menntamálaráðherra að hún og kennarar hafi sammælst um að ráðast í tíu skilgreind verkefni sem unnin verða samhliða breyttum námstíma til stúdentsprófs. Fjölmargar nefndir og starfshópar, þar sem nær 100 fulltrúar helstu hagsmunaaðila eigi sæti, hafi komið að þessari vinnu á liðnu ári. Flestir starfshópar og nefndir hafa þegar skilað tillögum til ráðherrans en von er á þeim síðustu nú í febrúar. Þorgerður Katrín nefndi sérstaklega tillögur starfsnámsnefndar.

„Við gerðum okkur grein fyrir því þegar ég skipaði þessa nefnd að þær tillögur myndu hugsanlega hafa áhrif á þær tillögur sem fyrir voru í ráðuneytinu," sagði Þorgerður Katrín. Hún sagði að þar væri lögð áhersla á jafngildingu verknáms og bóknáms og eflingu starfsnáms í framhaldsskólunum. Þar væri ný hugsun um eitt stúdentspróf. Lagðar væru fram róttækar hugmyndir um nýskipan framhaldsskólans og endurskilgreiningu stúdentsprófsins.

„Skólanum verði veitt frelsi til að skipuleggja og bjóða nám í samræmi við lokamarkmið námsins, þar með nemendakröfur næsta viðtökuskólastigs eða atvinnulífsins. Nemandi ljúki náminu á þeim tíma sem nauðsynlegur er með tilliti til þessara þátta. Námið miðist við inntak fremur en tíma," sagði Þorgerður Katrín.

Námstími hefur lengst með lengingu skólaársins. Sagði Þorgerður Katrín að grunnskólinn hafi lengst um tvö ár og framhaldsskólinn um eitt misseri. Hún sagði og að aukin samfella í námsefni milli skólastiga og sveigjanleiki í skipulagi muni skapa nemendum fjölbreytta möguleika til að velja nám í samræmi við þarfir sínar og hæfileika og fleiri tækifæri til að ákveða námshraðann í takti við hæfileika sína og áhuga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert