Rétt um kl. 9 í kvöld urðu þeir sem búa á bökkum Blöndu varir við mikla skruðninga og var líkast því að vörubíll æki um bakkann. Svo reyndist ekki vera heldur var jökuláin að hreinsa sig af miklu afli og með miklum jakaburði. Þetta er afar óvenjulegt á þessum tíma árs og einnig í ljósi þess að ekki er hlákan komin í Húnaþing.
Þegar mest lét þá stóð áin býsna hátt og fyrir innan á eða vestan megin árinnar munaði ekki mörgum metrum að hún hefði farið upp á Blöndubyggðina. Það sjatnaði fljótt í ánni og hálftíma síðar rann Blanda lygn til sjávar líkt og Don.