Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var hvattur til þess á Alþingi í dag, að beita sér fyrir því að liðka fyrir málum í deilu grunnskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga. Geir vísaði til þess, að launasamningar kennara væru á ábyrgð sveitarfélaga.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar tók málið upp í upphafi þingfundar og sagði, að forsætisráðherra hlyti að hafa metnað til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir kennara og hann gæti ekki skotið sér undan ábyrgð með því að vísa málinu alfarið til sveitarfélaga því ríkisstjórnin bæri ábyrgð á skólastarfi í landinu. Sagði Björgin, að bæta þyrfti kjör kennara og færa starf þeirra til vegs og virðingar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það nýmæli ef þingmenn stjórnarandstöðunnar treystu ekki lengur sveitarfélögunum í þessu máli og vildu að ríkisstjórnin tæki á ný við verkefnum varðandi grunnskólann.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að stjórnvöld hefðu ekki látið fylgja með nægilegt fjármagn þegar grunnskólar voru færðir yfir til sveitarfélaga.