Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á heimasíðu sinni í dag, að hættan, sem vofað hafi yfir framhaldsskólunum, sé liðin hjá í bili.
Segist hann marka þetta af svari menntamálaráðherra á Alþingi í dag þar sem komið hafi fram, að ekki sé lengur stefnt að því að stytta nám til stúdentsprófs með miðlægum hætti heldur að auka samfellu á milli skólastiga þannig að þeir nemendur sem vilji og geti fari hindranalaust í gegnum stúdentsprófið á tveimur til þremur árum.
Björgvin segir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, hafa boðað að innan tíðar komi fram frumvarp, á þessu þingi, sem feli í sér breytingu á lögum um leikskóla, grunnskóla og framahaldsskóla. Þau væru byggð á samfellu, sveigjanleika og fjölbreytileika en ekki styttingu um eitt ár eins og áður hafi verið boðað.