Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist fjöldi tilkynninga um skemmdarverk sem hafa verið unnin í Hafnarfirði í nótt. Að sögn lögreglu hafa skemmdarverk verið unnin á húsum, bílum og vinnutækjum vítt og breitt um bæjarfélagið. Ljóst er að öflug áhöld hafa verið notuð við spellvirkin miðað við skemmdirnar, en áhöld hafa m.a. verið rekin í gegnum bifreiðar svo dæmi séu tekin.
Ekki liggur fyrir hvort um einn spellvirkja eða fleiri sé að ræða en lögregla rannsakar nú ýmsar vísbendingar sem hafa borist og telur sig vera komna á spor skemmdarvargsins. Ljóst er að um tugmiljóna króna tjón er að ræða.