Verjendur mótmæla löngum yfirheyrslum í Baugsmáli

Það var mikill pirringur í mönnum er þriðji dagurinn í seinni hluta Baugsmálsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Meginástæðan fyrir honum er sú að ljóst er orðið að yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni muni standa lengur yfir en í fyrstu var áætlað af settum ríkissaksóknara.

Verjendur lögðu fram bókanir þess efnis að þeir mótmæltu þeim drætti sem hefði orðið á yfirheyrslunum nú þegar og spurði Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs hvort málsaðilar ættu ekki að setjast niður síðar í dag og fara yfir það hvenær í júní muni henta að ljúka þessum réttarhöldum.

Honum þótti ósanngjarnt að ákæruvaldið mætti þráspyrja eins og það hefur gert fram að þessu.

Settur saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon sagði að það myndi taka bæði daginn í dag og morgundaginn að ljúka yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeiri. Varðandi seinkun málsins sagði hann að það myndi sömuleiðis létta öllum lífið ef svör verjenda væru ekki dregin endalaust.

Dómarinn tók undir það að æskilegt væri að menn héldu sig við gerða tímaáætlun og spurði ákæruvaldið hvort ekki mætti draga úr þessum almennu spurningum um fyrirtækið og setja þær fram með hnitmiðaðri hætti.

Mikið hefur verið spáð í innkaupapokana sem Jón Ásgeir mætir með í dómssalinn og gantaðist hann sjálfur við verjenda sinn er þeir voru að koma sér fyrir í réttarsalnum um það hvaða skilaboð hann væri að senda í dag með því að mæta með sinn pokann af hvoru tagi, einn frá Bónus og annan frá Hagkaupum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert