Samfylkingarfélag Borgarbyggðar hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er vegatollum í Hvalfjarðargöngunum. Beinir stjórn félagsins þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að sjá til þess að vegatollar í Hvalfjarðargöngin verði aflagðir með öllu hið allra fyrsta, en ekki árið 2018 eins og áætlanir geri ráð fyrir.
Í ályktuninni segir, að það sé hróplegt óréttlæti, að ein akstursleið út úr höfuðborginni sé skattlögð sérstaklega umfram aðrar enda brjóti það gegn jafnræðissjónarmiðum. Tollurinn um Hvalfjarðargöngin virki hamlandi bæði á ferðaþjónustu á Vesturlandi sem og atvinnusókn og sé tollurinn í raun samkeppnishindrun fyrir byggðaþróun vestan ganganna.