Eftir stutt hlé á þinghaldi í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur um tvöleytið í dag tilkynnti dómari í málinu, Arngrímur Ísberg, að saksóknari fengi að yfirheyra Jón Ásgeir Jóhannesson til klukkan 16:15.
Eftir það yrði gert fimmtán mínútna hlé og eftir það fengi vörnin að spyrja Jón Ásgeir spurninga. Saksóknari mótmælti þessu og sagði að það gæti stefnt sönnunarfærslu ákæruvaldsins í hættu.
Rétt í þann mund er klukkan varð 16:15 þá stöðvaði Arngrímur Ísberg saksóknara í miðri spurningu til Jóns Ásgeirs og lýsti því yfir að það væri komið að hléi og eftir hlé myndu verjendur taka við.
Saksóknari spurði þá hvenær hann fengi að ljúka skýrslutöku, hvort það yrði seinna en dómari sagði að samkvæmt áætlun saksóknara frá því í gær hefði skýrslutökum átt að ljúka klukkan 18 í gær og það væri við engan að sakast nema hann sjálfan. Málið væri útrætt og fór dómari við svo búið úr réttarsal.
Nú munu verjendur í málinu spyrja Jón Ásgeir út í málið en ekki liggur fyrir hvenær þinghaldi lýkur í dag. Né heldur hvenær saksóknari fær að spyrja Jón Ásgeir frekar.