Á Borgarráðsfundi í dag tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir við störfum oddvita Samfylkingarinnar af Degi B. Eggertssyni sem er farinn í fæðingarorlof til 1. apríl nk.
Einnig tók Björk Vilhelmsdóttir sæti Dags í borgarráði frá sama tíma. Borgarstjórnarflokkur Samfylkingar verður á þessum tíma skipaður fjórum konum. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Björk Vilhelmsdóttur, Oddnýju Sturludóttur og Sigrúnu Elsu Smáradóttur.
Er það í fyrsta sinn síðan á dögum kvennaframboðs og kvennalista að pólitískt afl í borgarstjórn er eingöngu skipað konum, samkvæmt upplýsingum frá Steinunni Valdísi.
Í borgarráði í dag bar það helst til tíðinda, að sögn Steinunnar Valdísar að Samfylkingin spurði um hjúkrunarheimili og vakti athygli á að ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu í hjúkrunarheimili á Lýsislóð á árinu 2007, þrátt fyrir fögur orð borgarstjóra um forgangsröðun í þágu aldraðra.
Einnig var eftirfarandi fyrirspurn lögð fram vegna vinnu hjúkrunarheimilisins Eirar við undirbúning, teikningu og hönnun útboðsskyldrar menningarmiðstöðvar í Spöng, án útboðs eða beinna samninga.
„Viljayfirlýsing milli Reykjavíkurborgar og Eirar, dags. 18. október 2006, um byggingu þjónustuíbúða og menningarmiðstöðvar í Spöng, var aðeins undirrituð af hálfu Reykjavíkurborgar af kjörnum fulltrúum sem ekki geta bundið hendur borgarinnar. Annar þeirra, formaður borgarráðs, hefur lýst því yfir að það að viljayfirlýsingin hafi innifalið menningarmiðstöð en ekki aðeins þjónustuíbúðir hafi verið mistök. Skrifað var undir viljayfirlýsinguna með fyrirvara um samþykki borgarráðs. Hún hefur þó ekki verið lögð fram þótt fjórir mánuðir séu liðnir.
Borgarstjóri er jafnframt stjórnarformaður Eirar og hefur sagt sig frá málinu til að sitja ekki beggja megin borðs. Í svari borgarstjóra til borgaráðs við fyrirspurn Samfylkingarinnar frá 9. nóvember sl. kemur fram að „ekki hafi verið tekin ákvörðun um að semja beint við Eir um byggingu menningarmiðstöðvar í Grafarvogi.” Jafnframt kom fram að engir slíkir samningar væru hafnir. Efast má um að stætt væri á slíkum samningum enda bendir allt til þess að bygging menningarmiðstöðvar sé útboðsskyld. Í skipulagsráði 14. febrúar sl. kom engu að síður fram að arkitekt Eirar væri langt komin með frumteikningar og hönnun menningarmiðstöðvar í Spöng, að því er segir í tilkynningu.