runarp@mbl.is
Jón Ásgeir Jóhannesson hélt í gær áfram að gefa skýrslu vegna meintra stórfelldra bókhaldsbrota sem hann og Tryggvi Jónsson eru sakaðir um að hafa framið árið 2001. Þessi meintu brot snerta færslur í bókhaldi Baugs með bréf í breska smásölufyrirtækinu Arcadia, kreditreikning frá SMS-verslunarfélaginu í Færeyjum og kreditreikning frá Nordica sem Jón Ásgeir kallaði í gær "frægasta reikning Íslandssögunnar."
Í öllum tilvikum eru þeir Jón Ásgeir og Tryggvi sakaðir um að hafa með þessu látið líta svo út að afkoma Baugs væri betri en raunin var.
Ákæruliður 14 varðar meint ólögmætt meiriháttar bókhaldsbrot sem ákæruvaldið telur að snúist um sýndarviðskipti með hlutabréf í Arcadia. Látið hafi verið líta svo út að þau hafi verið seld Kaupþingi í Lúxemborg til að búa til hagnað í bókhaldi Baugs fyrir árið 2000 en sú sala hafi aldrei átt sér stað.
Fyrsta færslan sem ákært er fyrir átti sér stað í mars 2001 en þá var bókfærð sala á hlutabréfum Baugs í Arcadia til Kaupþings í Lúxemborg fyrir 332 milljónir, með færsludegi 31. desember 2000. Telur ákæruvaldið að upphæðin hafi verið færð til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings og þar með myndað tilhæfulausa skuld. Tryggvi hafi síðan látið færa í bókhald Baugs endurkaup félagsins á framangreindum hlutabréfum í Arcadia fyrir 544 milljónir sem stofnframlag í A-Holding. Með þessu hafi ranglega verið búinn til hagnaður í bókhaldi Baugs upp á 164 milljónir. Seinna hafi færslurnar verið leiðréttar.
Sjá ítarlega frásögn í Morgunblaðinu í dag.