Harma að úttekt velferðarstofnunar hafi ratað í hendur fjölmiðla

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar harmar það að úttekt stofnunarinnar á stuðningsbýli á Miklubraut 18 skuli vera komin í hendur fjölmiðla, og þá atburðarrás sem hafi fylgt málinu. Þá þykir henni miður að hún hafi ekki náð að kynna úttektina fyrir velferðarráði fyrr en 14. febrúar s.l., en þetta kemur fram í tilkynningu sem velferðarsviðið sendi frá sér.

Tilkynningin er eftirfarandi:

„Úttektir Velferðarsviðs ná til margra þátta starfseminnar. Tilgangur þeirra er mat á árangri og greining á því sem betur má fara. Í framhaldi af úttektum er forstöðumönnum/rekstraraðilum gefið tækifæri til að bæta úr því sem þörf er á. Þær eru því fyrst og fremst vinnutæki til að tryggja gæði þjónustu við notendur og grípa til aðgerða ef tilefni er til.

Úttektin sem um ræðir var framkvæmd á tímabilinu júlí – september 2006. Strax í október 2006 þegar niðurstöður úttektarinnar lágu fyrir var forstöðumanni stuðningsbýlisins gerð grein fyrir niðurstöðum. Þegar var því brugðist við gagnvart rekstraraðilum í þeim tilgangi að grípa inn í og lagfæra þau atriði sem athugasemdir bárust við. Úttekt á starfseminni verður gerð að nýju í september 2007 til að ganga úr skugga um að úrbætur hafi náð fram að ganga.

Velferðarsviði þykir miður að ekki tókst að kynna úttektina fyrir velferðarráði fyrr en 14. febrúar s.l. Að baki því liggja margvíslegar ástæður m.a. þurfti fyrst að kynna niðurstöður hennar fyrir þátttakendum úttektarinnar. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki við samvinnuverkefni sem þessi enda um afar viðkvæm málefni að ræða þar sem unnið er að sameiginlegum hagsmunum í þágu notenda þjónustunnar.

Hugmyndafræði sem úttektir sem þessar byggja á gera ráð fyrir að niðurstöður séu ætíð fyrst kynntar þátttakendum. Þetta er hluti af því að viðhalda nauðsynlegu trausti og trúnaði sem verður að ríkja eigi úttektir að skila árangri. Úttektir eru mikilvægt vinnutæki í nútíma starfsumhverfi þar sem síaukin áhersla er á samvinnu við þriðja aðila um rekstur. Ef ekki ríkir trúnaður og sátt um vinnuferla og verklag þá er ekki hægt að beita þessari aðferð.

Vakin er athygli á að hér er um að ræða viðkvæm málefni og að umrædd úttekt tekur til afar fárra einstaklinga. Velferðarsvið harmar því þessa atburðarrás og að úttektin sé komin í fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert