Eftir þinghald í Baugsmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag átti settur ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, eftir að ljúka spurningum sínum til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Sigurður óskaði eftir því að fá að ljúka yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeiri áður en vitnaleiðslur hæfust, þ.e. yfir öðrum vitnum í málinu.
Arngrímur Ísberg, dómari í málinu, lagði það í hendur málflytjenda að semja um þetta. Eftir þinghaldið í dag, kl. 18, fóru þeir að ræða um þetta en engin niðurstaða hefur fengist og á morgun mun Tryggvi Jónsson byrja að gefa skýrslu.