Framsóknarmenn og Frjálslyndir tókust á í þingsal í dag um meintar handtökur á þekktum hryðjuverkamönnum á Keflavíkurflugvelli. Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, steig fyrstur í pontu og sagði að málflutningur Valdimars Leós Friðrikssonar, þingsmanns Frjálslyndra, í síðustu viku, er vörðuðu þessar meintu handtökur, ættu ekki við rök að styðjast. Hann bað því þingmenn Frjálslynda að upplýsa þingheim um hvaða þekktu hryðjuverkamenn hafi verið um að ræða.
Guðjón Ólafur benti á að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafi sagt við samtali við fréttastofu Sjónvarpsins að hann kannaðist ekki við það að þekktir hryðjuverkamenn hefðu verið teknir höndum á vellinum.
Þar sem Valdimar Leó var fjarverandi sökum veikinda tók Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslyndra til máls. Hann sagði að ítrekuð tilfelli hafi komið upp, bæði á Keflavíkurflugvelli og á Seyðisfirði, þar sem menn hafa verið handteknir með hráefni til „stórkostlegrar framleiðslu á fíkniefnum“. Magnús sagði að Valdimar hafi með orðum sínum verið að vísa til fíkniefnainnflutnings og benti Magnús m.a. á útskýringu íslenskrar orðabókar á orðinu hryðjuverk. „Hvað er verksmiðjuframleiðsla og dreifing fíkniefna hér á landi annað en ódæðisverk, limlesting og jafnvel manndráp,“ sagði Magnús og vísaði þar með til útskýringar orðabókarinnar á orðinu hryðjuverk.
Framsóknarmenn sökuðu Frjálslynda um að vera með útúrsnúning í málflutningi sínum. Ljóst væri að samkvæmt íslenskri málvenju væri ekki verið að ræða um fíkniefnasala þegar menn töluðu um hryðjuverkamenn. „Útskýringar háttvirts þingmanns, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, eru ekkert nema aumir útúrsnúningar. Ég held að háttvirtir þingmenn Frjálslynda flokksins ættu að sýna manndóm sinn í því að biðja bæði þing og þjóð afsökunar á þessum ummælum háttvirts þingmanns, Valdimars Leós Friðrikssonar. Og ekki hvað síst að biðja háttvirtan þingmann Sæunni Stefánsdóttur afsökunar á þessum ummælum,“ sagði Guðjón Ólafur.