runarp@mbl.is
"ÞAÐ kom mér á óvart," sagði Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu um þá ákvörðun dómsformanns að stöðva skýrslutöku hans af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni klukkan 16.15 í gær og gefa verjanda kost á að beina til hans spurningum. Hann hefði talið sig hafa tíma til klukkan 18.
Í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi sagði Sigurður Tómas að hann hefði skilið dómara svo á miðvikudag að hann yrði að ljúka skýrslutöku sinni klukkan 18 og því hefði tilkynning dómarans um annað komið honum algjörlega í opna skjöldu. "En dómari verður að ráða sínu þinghaldi," sagði hann og bætti við að ákæruvaldið yrði einfaldlega að laga sig að því. "Í sjálfu sér er það þannig að ég hefði kosið að halda þessari skýrslutöku áfram og klára hana. Það var ekki eftir nema rúmlega klukkutími. En hún mun bara halda áfram síðar."
Þetta var langt í frá í fyrsta skipti sem dómari gerði athugasemdir við að skýrslutaka saksóknarans tæki of langan tíma og það er ljóst að hann hefur farið langt út fyrir þau tímamörk sem honum voru sett í dagskrá. Spurður um hvers vegna hann hefði ekki haldið sig við tímamörkin sagði Sigurður Tómas að vissulega væru spurningarnar ítarlegar en sakarefnin væru að sama skapi fjölmörg. Ef þau væru hvert í sínu málinu þættu þetta ekki langar skýrslutökur. Hafa bæri og í huga að lengdin réðist einnig af samspili þess sem spyr og þess sem svarar. Í gærkvöldi hafði ekki verið ákveðið hvenær skýrslutöku yfir Jóni Ásgeiri yrði haldið áfram.
Nánar er fjallað um Baugsmálið í Morgunblaðinu í dag.