Forseti Djíbútís, Ismail Omar Guelleh, heimsækir Ísland mánudaginn 19. febrúar og þriðjudaginn 20. febrúar næstkomandi. Með honum í för eru utanríkisráðherra Djíbútís, Mahmoud Ali Youssouf, og sveit embættismanna, vísindamanna og sérfræðinga. Forsetinn kemur hingað frá París þar sem hann sat leiðtogafund frönskumælandi Afríkuríkja, að því er segir í tilkynningu frá embætti forseta Íslands.
„Heimsóknin til Íslands er sprottin af samvinnu forseta Djíbútís, forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og hagfræðingsins Jeffrey Sachs, forstöðumanns Earth Institute við Columbia háskólann í Bandaríkjunum, um það hvernig íslensk reynsla, þekking og tækni gætu nýst við virkjun jarðhita í sex löndum í austanverðri Afríku. Auk Djíbútí eru það Kenía, Tansanía, Úganda, Eþíópía og Erítrea," samkvæmt tilkynningu.