Viðtakendur pósts í nokkrum götum Mosfellsbæjar og Grafarvogs fengu nýlega stór umslög með bréfum sem póststimpluð voru í upphafi ársins. Morgunblaðinu er kunnugt um viðtakanda sem hafði saknað launaseðils, bankayfirlita og annars glaðnings í ársbyrjun. Hann hafði talið að heimilisfólk hefði óvart fargað póstinum og kvaðst hafa gert nokkurt veður út af því – en allir borið við sakleysi sínu.
Í fyrradag barst honum stórt umslag frá Íslandspósti og þar voru bréfin sem hafði verið saknað svo sárt eftir áramótin. Með fylgdi afsökunarbeiðni frá Íslandspósti þar sem sagði m.a. að af óviðráðanlegum ástæðum hefði ekki verið hægt að koma meðfylgjandi pósti til skila fyrr.
"Starfsmaður okkar brást starfsskyldum sínum við útburð en pósturinn fannst óskemmdur fyrir nokkrum dögum," sagði m.a. í bréfi Íslandspósts.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.