Maður um tvítugt í annarlegu ástandi skapaði stórhættu á götum borgarinnar nú á ellefta tímanum er hann ók á ofsahraða um íbúðarhverfi í austurhluta Reykjavíkur. Að sögn lögreglu var reynt að stöðva bifreiðina á Reykjanesbraut rétt við Kleppsveg en ökumaðurinn virti engin stöðvunarmerki og keyrði ítrekað yfir á rauðu ljósi. Lögregla elti manninn vestur Miklubraut þar sem hann beygði inn á Suðurlandsbraut og ók yfir túnið við leiksskólann Steinahlíð og yfir á Miklubraut aftur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mældist bifreiðin á 190 km hraða.
Fimm til sex lögreglubifreiðar eltu bifreiðina, en þrír voru í henni, upp í Breiðholt og loks tókst að stöðva þá á Sæbraut á móts við Súðarvog.
Að sögn lögreglu má rekja að minnsta kosti einn árekstur til ofsaaksturs mannsins á mótum Bæjarháls og Bitruhálsar en ekki liggur ljóst fyrir hvort einhver hafi slasast í árekstrinum. Jafnframt keyrði hann á kyrrstæðan bíl við veitingastaðinn Sprengisand við Breiðholtsbraut.