Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, er nú að taka skýrslu af Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ekki liggur fyrir hvenær skýrslutöku yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, verður fram haldið en að sögn verjanda Jóns Ásgeirs verður það væntanlega í lok næstu viku.
Eins og fram kom á Fréttavef Morgunblaðsins í gær þá stöðvaði dómsformaður, Arngrímur Ísberg, skýrslutöku saksóknara yfir Jóni Ásgeiri síðdegis í gær.
Jón Ásgeir er farinn til útlanda og ekki er vitað hvenær hann kemur aftur til landsins. Að sögn Gests Jónssonar, verjanda Jóns Ásgeirs, mun það væntanlega skýrast um eða eftir helgina en hann á von á því að hægt verði að halda áfram með skýrslutökuna í lok næstu viku.
Skýrslutaka yfir Tryggva mun hins vegar væntanlega standa yfir fram í miðja næstu viku.