Á fimmta degi réttarhaldanna í seinnihluta Baugsmálsins var komið að yfirheyrslum yfir Tryggva Jónssyni. Ákæruvaldið hefur áætlað að yfirheyrslum yfir honum muni ljúka fyrir hádegi á miðvikudag, en það er ekkert gefið í þessum efnum eins og sannaðist í yfirheyrslunum yfir Jóni Ásgeiri en eins og kunnugt er tókst ekki að ljúka þeim þrátt fyrir framlengingu og stöðvaði dómarinn Arngrímur Ísberg yfirheyrsluna í gær.
Í morgun ræddu saksóknari, verjendur og dómari dagskránna, hver yrði yfirheyrður hvenær og sérstaklega hvenær Jón Ásgeir sé væntanlegur úr utanlandsferð sinni.
Settur saksóknari Sigurður Tómas Magnússon hóf síðan að spyrja Tryggva Jónsson um stöðu hans innan Baugs og síðan nánar út í viðskiptareikninga og bókhaldsaðferðir og hvort allir hluthafar Baugs hafi getað fengið lán hjá fyrirtækinu. Síðan spunnust umræður um hvað væri lán og hver munurinn væri á láni og viðskiptaláni.
Tryggvi var í dag yfirheyrður bæði með stöðu sakbornings og vitnis og var hann minntur á að hann þyrfti ekki að svara spurningum sem gætu haft sakfellandi áhrif.
Saksóknari spurði einnig út í tölvupósta sem gengu milli Tryggva og Jóns Ásgeirs og hvort hann teldi að þeir væru falsaðir. Því svaraði Tryggvi ekki en sagðist hafa séð tölvupósta í gögnum málsins sem hann kannaðist ekki við.
Einn tölvupóstur kom sérstaklega til tals þar sem Tryggvi segir Jóni Ásgeiri að hann geti litið á póstinn sem létta hótun og nefnir að vinur sé sá sem til vamms segi og að Jón Ásgeir vilji væntanlega ekki hafa já-menn í kringum sig.
Við yfirheyrsluna sagði Tryggvi að sá póstur muni hafa verið sendur í kjölfar bréfs sem Hreinn Loftsson sendi honum eftir að hafa hitt ákveðinn mann í íslensku samfélagi á frægum fundi í London og því uppnámsástandi sem fylgdi í kjölfarið.
En í þeim tölvupósti sem settur saksóknari dró sérstaklega fram segir Tryggvi að nauðsynlegt sé að athuga samkeppnismál með samskipti Baugs, sem var almenningshlutafélag á þeim tíma, við Gaum sérstaklega í huga.