Davíð Logi Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, hlaut í dag Blaðamannaverðlaun ársins 2006 fyrir skrif um alþjóðamál, þar á meðal skrif um Guantanamo-fangabúðirnar á Kúbu og Íslensku friðargæsluna. Davíð Logi hlaut einnig sérstök verðlaun dómnefndar á sýningu blaðaljósmyndara í dag fyrir myndaröð frá Guantanamo-fangabúðunum.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, sigraði í flokknum Besta umfjöllun ársins 2006 fyrir ítarlega, aðgengilega og vandaða umfjöllun um Evrópumál í greinaflokknum „Ísland og Evrópusambandið".
Í flokknum Rannsóknarblaðamennska ársins 2006 sigraði Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kompási, fyrir nýstárlega, hugmyndaríka og afhjúpandi umfjöllun um bæði málefni barnaníðinga og um málefni Byrgisins.
Til Blaðamannaverðlauna ársins 2006 voru auk Davíðs Loga tilnefnd: Halldór Baldursson, Blaðinu, fyrir skop- og ádeiluteikningar sínar og túlkun á fréttnæmum íslenskum þjóðfélagsviðburðum, og Kolbrún Bergþórsdóttir, Blaðinu, fyrir fjölbreytileg og áhugaverð mannlífsviðtöl og menningarskrif sem dreifast yfir allt árið 2006.
Auk Auðuns voru tilnefnd í flokknum Besta umfjöllun ársins 2006: Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Kastljósi, fyrir tímabæra, upplýsandi og notendavæna greiningu á hugtökum og staðreyndum úr orðræðu stjórnmálamanna um skattkerfið og þróun þess, og Sigríður Víðis Jónsdóttir, Morgunblaðinu, fyrir vandaða og viðamikla umfjöllun um úrræði í skólakerfinu fyrir börn með hegðunarfrávik og geðraskanir í greinaflokknum „Verkefni eða vandamál?"
Í flokknum Rannsóknarblaðamennska ársins 2006 voru auk Jóhannesar tilnefnd: Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, Blaðinu, fyrir uppljóstrandi fréttaröð í Fréttablaðinu um margfaldan verðmun á samheitalyfjum á Íslandi annars vegar og Danmörku hins vegar, Henry Birgir Gunnarsson, Fréttablaðinu, fyrir fréttaskrif og eftirfylgd þar sem upplýst er um mikinn mun á launum og kjörum karla og kvenna í A-landsliðum Íslands í knattspyrnu.