Allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt í Háskólabíói, Borgarleikhúsinu og húsnæði Kennaraháskólans á Háskóladeginum í dag milli klukkan 11-16.
Í fréttatilkynningu kemur fram að nemendur háskólanna, kennarar og námsráðgjafar taka á móti gestum og miðla af reynslu sinni. Einnig verður kynnt margskonar þjónustustarfsemi við nemendur. Búast má við því að um 3.000 gestir sæki námskynningu háskólanna þennan dag því fjölmargir óska eftir að fá þá persónulegu ráðgjöf sem þarna býðst. Margir gestanna eru að taka einhverja stærstu ákvörðun ævinnar, möguleikarnir eru margir og skiptir máli að vanda valið. Gott tækifæri gefst til þess á þessum sameiginlega kynningardegi þar sem kynntar eru u.þ.b. 500 mismunandi námsleiðir.