Ekki hægt að hefta för klámframleiðenda hingað

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að varla sé tilefni til að hefta för framleiðenda netklámefnis, sem áforma að halda vetrarfund sinn hér á landi í byrjun mars, nema ljóst sé, að um þetta fólk hyggist stunda ólöglegt athæfi hér á landi. Geir sagði, að lögreglan hefði hins vegar tekið áskorun Stígamóta alvarlega og væri með málið til rannsóknar og myndi væntanlega grípa til aðgerða ef grunur léki á lögbrotum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málið upp í fyrirspurnartíma á Alþingi og spurði forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hygðist grípa til einhverra ráðstafana vegna fundarins en Ingibjörg Sólrún sagðist vita, að málið hefði verið rætt innan ríkisstjórnarinnar.

Ingibjörg Sólrún sagði að klámiðnaðurinn bryti gegn mannhelgi og kynfrelsi fólks, ali á mannfyrirlitningu, ekki síst kvenfyrirlitningu og meiði fólk. Þegar 150 aðilar, tengdir þessum iðnaði, hygðust koma hingað til lands snérist málið um siðræn viðhorf en ekki lagatæknileg.

Geir H. Haarde sagðist taka undir með með Ingibjörgu Sólrúnu um að Íslendingar vildu ekki að klámiðnðaur nái fótfestu hér á landi. Geir sagðist hafa óbeit á klámiðnaði og allri hans framleiðslu. Sér væri hins vegar ekki ljóst, hvort umræddir aðilar ætluðu að koma hingað til að stunda slíka starfsemi. Sagði Geir, að koma fólksins hingað gæti vart gefið tilefni til að hefta för þess nema ljóst væri, að um ólöglegt athæfi sé að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert