Stjórn Sorpurðunar Vesturlands hf. hafnaði í síðustu viku beiðni Grænfriðunga um leyfi til sýnatöku úr hvalaafurðum þeim er urðaðar voru á urðunarsvæði fyrirtækisins í Fíflholtum á Mýrum á síðasta ári.
Í frétt á vef Skessuhorns kemur fram að Sorpurðun Vesturlands hf. er í eigu sveitarfélaganna á Vesturlandi og er stærstur hluti sorps af Vesturlandi urðaður í landi Fíflholta.
Eins og fram hefur komið í fréttum voru um 179 tonn af þeim sjö langreyðum sem veiddar voru á síðasta ári urðaðar eða um þriðjungur til helmingur hvalaafurða. Í bréfi sem Grænfriðungar sendu fyrirtækinu kemur fram að með sýnatökunni vilji samtökin rannsaka magn eiturefna í hvalaafurðunum.
Fram kemur að sýni tekin úr hrefnu í Noregi sýni hátt hlutfall eiturefna og því beri að meðhöndla hvalaúrgang sem hvern annan eiturefnaúrgang. Þrátt fyrir að eiturefnainnihald í langreyði kunni að vera annað en í hrefnu telja samtökin að niðurstöður eiturefnamælinga hefðu átt að liggja fyrir áður en afurðirnar voru urðaðar.
Í svari sem Guðbrandur Brynjúlfsson, formaður stjórnar Sorpurðunar Vesturlands sendi samtökunum kemur fram að stjórnin hafi afdráttarlaust hafnað erindi samtakanna. Engum sé hleypt inn á urðunarsvæðið til sýnatöku, öðrum en þeim sem til þess hefur verið ráðinn og samþykktur af Umhverfisstofnun.