Lögreglumenn í Borgarnesi lærðu í dag á nýtt tæki til að mæla hraða ökutækja, hraðamæli sem notast við geisla. Tækið beinir geislanum að farartækinu og geta lögreglumenn haldið á því, en hraðaskannarnir sem lögreglan notast alla jafna við eru festir við innréttingar lögreglubíla. Lögreglumaður getur því mælt hraða bifreiðar án þess að vera í lögreglubíl.
Lögreglan í Borgarnesi, á Akranesi og í Stykkishólmi hefur auk þess notað svokallaða hraðagreina, tæki sem fest eru við ljósastaura og nema hraða og stærð farartækja. Með þessu er hægt að fylgjast með umferðarhraða til lengri tíma, vikur í senn jafnvel, og þannig ná réttari mynd af ástandinu en með hraðamælingum lögreglumanna einstaka daga.
Theodór Kr. Þórðarson, yfirlögregluþjónn í Borgarnesi, segir að með slíkum hraðagreini megi finna út hvort hægja þurfi á umferðinni með einhverjum aðferðum, t.d. hraðahindrunum. Lögreglan í Borgarnesi er með þráðlausan búnað og fartölvu í einni bifreiða sinna og getur keyrt upp að hraðagreininum og hlaðið niður upplýsingum um umferðarhraða að vild.