OR rannsakar jarðhita í Djíbútí

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, og Mahmoud Ali Youssouf, utanríkisráðherra Djíbútís, auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, skrifuðu í dag undir samstarfssamning um þróun jarðhitasvæða til raforkuframleiðslu í Djíbútí.

Þjóðhöfðingjar Íslands og Djíbútís, Ólafur Ragnar Grímsson og Ismail Omar Guelleh voru viðstaddir athöfnina, sem fór fram í höfuðstöðvum Orkuveitunnar. Við sama tækifæri handsöluðu Vilhjálmur og Ali Ismail Yabeh, borgarstjóri Djíbútís, höfuðborgar landsins, samkomulag um samstarf borganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni felur samningurinn í sér einkarétt Orkuveitunnar til rannsókna á jarðhita á tilteknum landsvæðum. Hann gildir til eins árs til að byrja með en verði niðurstöður rannsókna jákvæðar er gert ráð fyrir að Orkuveitunni verði veittur nýtingarréttur í samræmi við lög landsins.

Markmið samningsins er að nýta reynslu og þekkingu Orkuveitu Reykjavíkur til að virkja jarðhita í Djíbútí til raforkuframleiðslu, en nú byggir landið 85% orkunotkunar sinnar á innfluttu jarðefnaeldsneyti. Djíbútí stendur á flekamótum eins og Ísland og þar eru svört basalthraun rétt eins og hér á landi. Nýting jarðhita þar er á frumstigi og felst fyrsti áfangi samstarfsins í því að vísindamenn Orkuveitunnar munu yfirfara fyrirliggjandi mæligögn úr borholum í Djíbútí og afla frekari gagna með mælingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert