Um fjörutíu manns voru viðstaddir á Egilsstöðum þegar Áki Ármann Jónsson veiðistjóri stjórnaði útdrætti umsókna um hreindýraveiðileyfi fyrir næstu veiðivertíð í haust. Einnig var fylgst með útdrættinum í gegnum fjarfundabúnað í Reykjavík, á Akureyri og í Neskaupstað. 2.731 umsókn barst um veiðileyfi, þar af voru 2.630 gildar. 1.100 leyfi eru í pottinum. 37 umsóknir bárust erlendis frá.
Útdrátturinn er algjörlega sjálfvirkur og unninn með tölvuforriti. Dregið er um hvert svæði fyrir sig og tarfa og kýr á hverju þeirra. Byrjað var að draga úr umsóknum á svæðum 1 og 2 og svo koll af kolli og birtust nöfn hinna heppnu jafnóðum. Þá er sérstakur biðlisti, en Áki sagði að jafnaði skilað inn 20 til 30 leyfum á vinsælustu svæðunum. Þeir sem fengu veiðileyfi eða eru á biðlista fengu tölvupóst þar um í nótt og snemma í morgun. Sex umsækjendur hafa ekki fengið leyfi 5 ár í röð og 11 ekki 4 ár í röð svo útdrátturinn virðist tryggja ágæta dreifingu.