Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, segir bæjarstjórn Kópavogs og Skógræktarfélag Reykjavíkur hafa átt góðan fund í dag þar sem menn hafi náð að stilla saman strengina. „Eins og í góðu hjónabandi verða menn að tala saman og ég held að það hafi margt skýrst í þessu. Ég held að margir hafi farið heldur geyst í þessu máli,“ sagði Gunnar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hann segir að ákveðið hafi verið að halda annan fund í vikunni.
Gunnar bendir á að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hafi sett sig í samband við Kópavogsbæ í tengslum við Heiðmerkurmálið svokallaða. Félagið hafi fyrst haft samband við Reykjavíkurborg. Hann bendir þó að að þegar lega vatnslagnarinnar í Heiðmörk var ákveðin árið 2003 hafi það verið ákveðið í samráði við Skógræktarfélag Reykjavíkur, það hafi síðan verið sent til Skipulagsstofnunar. Þá hafi engar athugasemdir borist og málið verið afgreitt jákvætt.
„Það liggur alveg ljóst fyrir að Kópavogsbær mun bæta þær skemmdir, ef einhverjar verða, vegna lagningar þessarar vatnslagnar,“ segir Gunnar og bætir því við að gengið hafi verið frá þessu við fyrrverandi framkvæmdastjóra félagins. Hann hafi hinsvegar hætt á óheppilegum tíma og nýr maður hafi komið inn sem hafi farið fram úr sjálfum sér í þessu máli. „Ég held að þetta hafi verið ágætis fundur milli þeirra og okkar. Ég held að menn ætli að hafa samband aftur í vikunni.“ Þess má þó geta að Gunnar var ekki sjálfur á fundinum heldur fulltrúar hans.
Gunnar segir að það hafi komið í ljós á fundinum að Orkuveita Reykjavíkur hafi ekki sett sig í samband við skógræktarfélagið. „Það virðast vera einhver samskiptavandamál innan borgarkerfisins,“ segir Gunnar.
Varðandi þau tré sem voru fjarlægð af framkvæmdarsvæðinu í Heiðmörk segir Gunnar að þau hafi verið flutt í geymslu á læstu svæði svo þeim yrði ekki stolið. Þau hafi verið keyrð á svæðið að beiðni eftirlitsmanns Kópavogsbæjar. „Menn vildu ekki að þau lægju þarna á víðavangi og að þau yrðu tekin,“ segir Gunnar. Hann bætir því við að það sé nauðsynlegt að málið verði fljótlega leyst því ekki sé hægt að geyma trén með þessum hætti lengi.