Spurt um kostnað við rekstur Baugsmálsins

Þingmenn úr fjórum þingflokkum á Alþingi hafa lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra þar sem spurt er um kostnað ríkisins við rannsókn og rekstur Baugsmálsins. Þá er m.a. einnig spurt hversu margar vinnustundir starfsmanna ríkislögreglustjóra hafi farið í málið frá júlí 2002 til dagsins í dag.

Fyrirspurnin er frá Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanni Samfylkingar, Hjálmari Árnasyni, þingmanni Framsóknarflokks, Kolbrúnu Halldórsdóttur þingmanni VG og Sigurjóni Þórðarsyni, þingmanni Frjálslynda flokksins.

Spurt er hver sé heildarkostnaður ríkisins við rannsókn og rekstur Baugsmálsins frá því í ágúst árið 2002 og fram til dagsins í dag eða til þess tíma á árinu 2007 sem upplýsingar liggi fyrir um og hvernig hann skiptist á eftirfarandi þætti:

    a. rekstur efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra,
    b. aðkeypta sérfræðiaðstoð og annan útlagðan kostnað efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra (þ.m.t. ferða- og uppihaldskostnað) við rannsókn og rekstur málsins,
    c. störf sérstaks saksóknara í Baugsmálinu, þ.m.t. kostnaður við aðstoðarmenn og aðkeypta sérfræðiþjónustu,
    d. kostnað sem íslenska ríkið hefur verið dæmt til þess að greiða vegna málsvarnarkostnaðar ákærðu í Baugsmálinu,
    e. annað, áður ótalið, sem eðlilegt er að telja hafa lent á ríkissjóði vegna málsins?
Þá er spurt hve stór hluti af starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á framangreindu tímabili hafi farið í Baugsmálið og hversu margar vinnustundir starfsmanna ríkislögreglustjóra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert