Sannleikurinn um kartöflumýsnar sem sáust þjóta um gólf Bónusverslunarinnar í Holtagörðum í gær, þegar fréttamaður Stöðvar 2 var þar staddur að gera verðkönnun, hefur komið í ljós.
Atvikið var sýnt nokkrum sinnum nú í kvöld í þættinum Ísland í dag og þótti þáttastjórnendum það vera ljóst að um kartöflur, en ekki mýs, hafi verið að ræða. Það hafi sést einna gleggst á því að hlutirnir rúlluðu eftir gólfinu líkt og kartöflur gera þegar þær falla í gólfið. Mýs eru hinsvegar þekktari fyrir að ferðast á fjórum jafnfljótum, fremur en að rúlla eftir gólfinu líkt og fótbolti.