Sýndi falsað tölvubréf í réttarsalnum

Jakob R. Möller og Tryggvi Jónsson í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur.
Jakob R. Möller og Tryggvi Jónsson í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur.

Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, sýndi dómurum í Baugsmálinu falsað tölvubréf í réttarsalnum í dag, og vildi með því sýna fram á hve auðvelt væri að falsa tölvupósta. Sagði Jakob, að aðstoðarmaður verjenda hefði falsað bréfið á þremur mínútum í gærkvöldi en það virtist vera frá Sigurði Tómasi Magnússyni, saksóknara, til Tryggva Jónssonar.

Tryggvi Jónsson hefur nú síðdegis verið spurður um skemmtibát í Miami á Flórída en meðal ákæruefna í málinu er að sakborningar hafi látið Baug Group greiða kostnað við útgerð bátsins.

Tryggvi var m.a. spurður um tölvupósta sem fundust í tölvu Jóns Geralds Sullenbergers. Tryggvi sagðist ekki kannast við tölvupóstinn. Sagði hann að auðvelt væri að falsa slíka tölvupósta og í kjölfarið dró Jakob póstinn falsaða upp úr pússi sínu.

Dómurum í málinu þótti þetta athyglisvert en niðurstaðan varð þó sú að tölvupósturinn var ekki lagður formlega fram sem gagn í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert