Umhugsunarefni að konur hafi aldrei gegnt ákveðnum ráðherraembættum

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir í pistli á heimasíðu sinni, að það hljóti að vera umhugsunarefni að kona hafi aldrei hlotið stuðning til að gegna ákveðnum ráðherraembættum hér á landi. Nefnir Valgerður embætti fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra og samgönguráðherra, að ógleymdu forsætisráðherraembættinu.

„Ekki er það vegna þess að skortur er á hæfum konum. Ég hef kynnst hæfileikaríkum konum úr öllu litrófi stjórnmálanna sem gætu sinnt þessum embættum með miklum sóma. Þessa tímaskekkju þarf að leiðrétta í fyrirsjáanlegri framtíð. Tími málamiðlana er liðinn," segir Valgerður.

Hún segir áhugavert að fylgjast með væntanlegum forsetakosningum í Bandaríkjunum og Frakklandi. „Ég get ekki neitað því að mér hleypur kapp í kinn þegar ég fylgist með baráttu Hillary Rodham Clinton, sem yrði að mínu mati afar glæsilegur fulltrúi í Hvíta húsinu, og þar með fyrsta konan til að gegna embætti forseta í valdamesta ríki veraldar. Á sama tíma eru forsetakosningarnar í Frakklandi ekki síður áhugaverðar. Þar á skeleggur fulltrúi kvenna, Ségoléne Royal á brattann að sækja í könnunum, en gæti eftir sem áður orðið fyrsta konan sem gegnir embætti forseta Frakklands. Báðar eru þessar konur talsmenn mýkri gilda. Báðar setja þær manngildi ofar auðgildi. Báðar hljóta þær að höfða til viðhorfa okkar framsóknarkvenna. Ég er sannfærð um að veröldin yrði betri ef slíkar konur kæmu meira að stjórnun bæði innanríkis - og utanríkismála. Barátta þessara kvenna kalla fram minningar um það hversu stoltar við íslenskar konur vorum af Vigdísi Finnbogadóttur sem kjörin var forseti íslensku þjóðarinnar, fyrst kvenna til að vera kosin í slíkt embætti í lýðræðisríki. Vigdís hefur verið öðrum konum fyrirmynd, ekki aðeins á Íslandi heldur víða um heim," segir Valgerður.

Heimasíða Valgerðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert