Þetta kom fram á fundi borgarstjórnar í gær en þar var einróma samþykkt ályktun þar sem harmað er „að Reykjavíkurborg verði vettvangur ráðstefnu framleiðenda klámefnis[...]Og hugsanlega jafnframt vettvangur athæfis sem bannað er með íslenskum lögum."
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hefur lýst því yfir að koma ráðstefnugesta sé í óþökk hans. „Það var mjög ánægjulegt að sjá hvað var breið og eindregin samstaða um yfirlýsingu borgarstjóra," segir Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Hann segist ekki hafa tekið til máls á fundinum „sem fulltrúi neins flokks heldur sem faðir dætra minna". Aðspurður hvort hann líti á sig sem femínista, segir Gísli: „Ef það felst í þessari afstöðu minni, vík ég mér ekki undan því. Ég hef ekki verið að setja þann merkimiða á sjálfan mig en trúi á jafnan rétt einstaklinganna."
Í ályktun borgarstjórnar er ítrekuð sú yfirlýsta stefna Reykjavíkurborgar að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Þá eru ítrekaðar „óskir borgarstjóra um að lögregluembættið rannsaki hvort þátttakendur í hópi ráðstefnugesta kunni að vera framleiðendur barnakláms, auk annars ólögmæts klámefnis, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir dvöl meintra kynferðisbrotamanna hér á landi eða til þess að upplýsa um ólögmæta starfsemi."
Það varðar sex mánaða fangelsi skv. 210. gr. hegningarlaga að „búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt úr klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum..." Í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar í gær sagði Sóley fyrirhugað að brjóta gegn ákvæðinu á ráðstefnunni. „Fyrirhugað er að gera allt það sem 210. grein hegningarlaga kveður á um að megi ekki, að framleiða klám – með klámmyndatökum, að flytja inn klám – m.a. frá kostunaraðilunum, að selja klám – með kostunum og að dreifa klámi – m.a. í kostunarpakkanum."
Hún segist þó binda í alvöru vonir við að hætt verði við ráðstefnuna. „Þessi bransi hefur engan áhuga á svona umfjöllun."