Borgarstjórn öll á móti klámráðstefnu

Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is
Borgarstjórn Reykjavíkur er einhuga um að þátttakendur ráðstefnu klámframleiðenda eru óvelkomnir gestir í borginni.

Þetta kom fram á fundi borgarstjórnar í gær en þar var einróma samþykkt ályktun þar sem harmað er „að Reykjavíkurborg verði vettvangur ráðstefnu framleiðenda klámefnis[...]Og hugsanlega jafnframt vettvangur athæfis sem bannað er með íslenskum lögum."

Athugað með barnaklám

Konur voru í meirihluta fundarmanna. Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi VG, sem mælti fyrir ályktuninni, telur það engu hafa breytt. Konur hafi í gegnum tíðina verið í forystu baráttu gegn klámi en nú hafi borgarstjórn sent skýr skilaboð um að þetta sé málefni samfélagsins alls. "Það er stórkostlegt."

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hefur lýst því yfir að koma ráðstefnugesta sé í óþökk hans. „Það var mjög ánægjulegt að sjá hvað var breið og eindregin samstaða um yfirlýsingu borgarstjóra," segir Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Hann segist ekki hafa tekið til máls á fundinum „sem fulltrúi neins flokks heldur sem faðir dætra minna". Aðspurður hvort hann líti á sig sem femínista, segir Gísli: „Ef það felst í þessari afstöðu minni, vík ég mér ekki undan því. Ég hef ekki verið að setja þann merkimiða á sjálfan mig en trúi á jafnan rétt einstaklinganna."

Í ályktun borgarstjórnar er ítrekuð sú yfirlýsta stefna Reykjavíkurborgar að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Þá eru ítrekaðar „óskir borgarstjóra um að lögregluembættið rannsaki hvort þátttakendur í hópi ráðstefnugesta kunni að vera framleiðendur barnakláms, auk annars ólögmæts klámefnis, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir dvöl meintra kynferðisbrotamanna hér á landi eða til þess að upplýsa um ólögmæta starfsemi."

Brot gegn hegningarlögum?

Félag kvenna af erlendum uppruna (WOMEN) hefur einnig sent frá sér ályktun þar sem m.a. er harmað að framleiðendur kláms skuli hafa valið Ísland sem samkomustað. „Meðal annars hefur komið fram, í viðtali við talskonu hópsins, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins fimmtudaginn 15. febrúar, að áætlað væri að búa til myndefni hér á landi. Myndir á vefnum http://snowgathering.com/ sýna afrakstur síðustu samkundu og ekki fer á milli mála að þarna er um klámefni að ræða," segir í ályktuninni og eru stjórnvöld hvött til að fylgjast vel með hópnum.

Það varðar sex mánaða fangelsi skv. 210. gr. hegningarlaga að „búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt úr klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum..." Í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar í gær sagði Sóley fyrirhugað að brjóta gegn ákvæðinu á ráðstefnunni. „Fyrirhugað er að gera allt það sem 210. grein hegningarlaga kveður á um að megi ekki, að framleiða klám – með klámmyndatökum, að flytja inn klám – m.a. frá kostunaraðilunum, að selja klám – með kostunum og að dreifa klámi – m.a. í kostunarpakkanum."

Hún segist þó binda í alvöru vonir við að hætt verði við ráðstefnuna. „Þessi bransi hefur engan áhuga á svona umfjöllun."

Í hnotskurn
» Ráðstefna klámframleiðenda fyrir netmiðla er fyrirhuguð dagana 7.–11.mars nk.
» Hana ber upp á kvennadaginn 8. mars og hefur vakið hörð viðbrögð.
» Umdeilt er hvort íslensk fyrirtæki, svo sem Hótel Saga þar sem ráðstefnugestir gista, eigi að synja um viðskipti.
» Aðilar í ferðaþjónustunni, m.a. hótelstjóri Hótels Sögu segjast ekki geta gert greinarmun á viðskiptavinum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert