Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað karlmann af ákæru um að hafa viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir eða ærumeiðandi móðganir í garð annars manns á umræðuvef vefsíðunnar vísis.is. Ummælin voru skráð undir netfangi, sem maðurinn viðurkenndi að hafa stofnað en hann neitaði að hafa skrifað á spjallsvæðið. Þótti dómnum ekki sannað að svo hefði verið.
Málið tengist hörðum deilum, sem voru innan Garðasóknar í Garðabæ árið 2005. Hans Markús Hafsteinsson, þáverandi sóknarprestur í Garðasókn, kærði ummæli, sem viðhöfð voru um hann á spjallsvæði vísis.is undir þremur netföngum. Taldi Hans Markús, að ummæli, sem birtust undir netfanginu draumaprins@visir.is, vægju sérstaklega að starfsheiðri hans með refsiverðum hætti en einnig væru þar dylgjur um geðheilsu hans.
Héraðsdómur úrskurðaði í kjölfarið, að 365-prentmiðlum ehf., eiganda visir.is, væri skylt að veita lögreglu upplýsingar um hver hefði verið skráður fyrir tveimur netföngum. Fengust upplýsingar um hver hefði skráð netfangið draumaprins@visir.is en ekki tókst að afla upplýsinga um hitt.
Maðurinn sem netfangið skráði neitaði að hafa skrifað ummælin og sagðist enga skoðun hafa á prestadeilunni í Garðabæ, vissi ekkert um feril Hans Markúsar og hefði enga ástæðu til að gera hann tortryggilegan. Hann hefði tekið umrætt netnotandanafn í notkun fyrir mörgum árum en ekki notað það lengi.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði, er fór með rannsókn málsins, tók um það ákvörðun í janúar 2006 að hætta rannsókn þess. Hans Markús kærði þessa ákvörðun til ríkissaksóknara sem komst að þeirri niðurstöðu að hún skyldi felld úr gildi þar sem þörf væri á að rannsaka málið nánar og bæri að hefja frekari rannsókn með því að yfirheyra eiganda netfangsins. Fram kemur í dómnum, að ekki varð úr að slík yfirheyrsla færi fram. Lögreglan gerði hins vegar ítrekaðar tilraunir til að boða manninn til skýrslutöku án árangurs.
Þegar málið kom fyrir dóm bar maðurinn að hann hefði kennt notkun tölva og þar hvatt nemendur sína til að nýta sér umrætt netfang til að tjá sig á þessu vefsvæði. Til þess að gera þetta aðgengilegra hafi hann haft aðgangsorðið mjög einfalt svo þægilegt væri að muna það. Sagðist hann ekki hafa haft nokkrar áhyggjur af því að aðrir væru að skrifa þarna undir hans aðgangsorði því hann hefði staðið í þeirri trú að ef menn færu eitthvað yfir strikið í sínum skrifum þá myndi ritstjórn vefsvæðisins stöðva það.
Í niðurstöðu dómsins segir, að enda þótt framburður mannsins sé ekki að öllu leyti trúverðugur þyki við mat á sök hans verða til þess að horfa að ekki liggi fyrir nein gögn sem tengja hann beinlínis við umrædd skrif önnur en skrásetning hans fyrir netfanginu. Við rannsókn málsins hafi enginn reki verið að því gerður, fyrr en í lok febrúar 2006, að fá uppgefið hjá hýsingaraðila frípósts Vísis og/eða þeim fjarskiptafyrirtækjum, sem annast hafa netþjónustu fyrir það félag, um svokallaða IP-tölu sem tengdist umræddum skrifum. Virðist sem ekki hafi þá reynst unnt, svo löngu eftir að hin tilgreindu skrif áttu sér stað, að rekja hvaða IP-tala tengdist skrifunum og þá frá hvaða tölvu skrifin stöfuðu, enda hafi á þeim tíma verið liðinn sá 6 mánaða tími sem áskilið sé í lögum, að fjarskiptafyrirtæki sé skylt að varðveita upplýsingar um lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda.