Matar- og skemmtihátíðin Food and Fun var sett í hádeginu í dag og stendur hún fram til sunnudags, samhliða Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar. Það var Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, sem setti hátíðina á hótel Nordica ásamt þeim Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra og Einari Kr. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra. Guðni sló á létta strengi við setningu hátíðarinnar í dag, mærði vel og lengi gögn og gæði íslenskra landbúnaðarvara og sagði m.a. að íslenskt smjör væri engu öðru líkt og það besta í heimi.
Þetta er í sjötta sinn sem hátíðin er haldin í Reykjavík og munu 12 heimskunnir matreiðslumeistarar setja saman sérstaka matseðla á jafnmörgum veitingastöðum borgarinnar. Food and Fun er haldin í samstarfi við Reykjavíkurborg. Hátíðin er liður í markaðsstarfi Icelandair, í samstarfi við íslenskan landbúnað og veitingamenn og er markmiðið að kynna gæði íslenskra matvæla og veitingamennsku með nýstárlegum hætti, eins og segir í tilkynningu skipuleggjenda.
Á laugardag verður í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu haldin alþjóðleg keppni matreiðslumeistara sem opin verður öllum áhugamönnum um eldamennsku og matarmenningu. Keppnin stendur til kl. 16 og verða þá tilkynntir sigurvegarar í hverjum flokki. Nánar má lesa um hátíðina á vefsíðu hennar.