Í morgun héldu áfram yfirheyrslunum yfir Tryggva Jónssyni í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Saksóknari spurði ítrekað um tölvupóstakeðjur sem fundust í tölvu Jóns Geralds. Tryggvi Jónsson sagði margsinnis að hann kannaðist við ýmis atriði úr þeim en ekki við póstana sjálfa.
Mikið var rætt um möguleikann á að falsa tölvupósta og sömuleiðis var Tryggvi spurður hvers vegna hann hefði ekki gert athugasemd við meinta fölsun þegar tölvupóstarnir hefðu verið bornir undir hann við yfirheyrslu lögreglunnar. Svaraði hann því til að lögreglan hefði talið honum trú um að tölvupóstarnir kæmu úr hans eigin tölvu.
Jakob Möller verjandi Tryggva Jónssonar kvartaði yfir því að settur saksóknari væri að þráspyrja sakborningana og sagðist hafa talið um 1500 spurningum sem beint var til Jóns Ásgeirs undanfarna daga og eitthvað svipað til Tryggva núna.
Tryggvi kom sjálfur með þá athugasemd í morgun að hann teldi að um samsæri væri að ræða gegn Baugi og benti á þá ótrúlegu tilviljun að tölvupóstar frá Jónínu Benediktsdóttur til Styrmis Gunnarssonar, hefðu verið ritaðir sama dag og tölvupóstar milli Jóns Geralds og Baugsmanna þar sem gengið var endanlega frá viðskiptum Baugs við Jón Gerald.
Taldi Tryggvi það benda til þess að Jón Gerald hefði verið að leggja gildru fyrir Baugsmenn til að fá þá meðal annars til að samþykkja aðild sína að lystibátnum Thee Viking.
Á morgun hefjast yfirheyrslu Jón Gerald Sullenberger yfirheyrður og reiknað er með að saksóknara takist að ljúka yfirheyrslunni yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem er væntanlegur hingað til lands í þriggja tíma millilendingu frá Englandi á leið sinni til Bandaríkjanna.